Skjálfti, stuðningsmannalið Selfoss, var útnefnd besta stuðningsmannasveit ársins á lokahófi KSÍ sem fram fer á Broadway í kvöld.
Skjálftamenn kóróna þar með gott sumar en þeir studdu liðið sitt í gegnum súrt og sætt allt tímabilið. Súru stundirnar voru fleiri því Skjálfti þurfti að sjá á eftir sínu liði niður um deild. Skjálfti lét það ekki á sig fá og söng af krafti í allt sumar.
Þetta eru ekki fyrstu verðlaun Skjálfta á árinu því KSÍ verðlaunaði þá fyrir vasklega framgöngu í 1.-9. umferðum Pepsi-deildarinnar. Á dögunum voru Skjálftamenn svo valdir bestu stuðningsmenn ársins af hlustendum Rásar 2.