Sklopan á miðjuna hjá Selfyssingum

Grace Sklopan í leik með Auburn háskólanum. Ljósmynd/auburntigers.com

Knattspyrnudeild Selfoss hefur gert eins árs samning við bandaríska miðjumanninn Grace Sklopan.

Sklopan, sem er 24 ára gömul, kemur til Selfoss úr sterku liði Auburn háskólans í Alabama í Bandaríkjunum.

„Grace er teknísk og kvik og mun gefa okkur nýja vídd inni á miðjunni. Hún getur unnið vel bæði sóknarlega og varnarlega og mun eflaust koma að einhverjum mörkum í sumar,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í fréttatilkynningu frá Selfyssingum.

Sklopan er væntanlega falið að fylla skarð Miröndu Nild á miðjunni hjá Selfyssingum en hún hefur lagt skóna á hilluna.

Fyrri greinVegurinn opnaður í vikunni
Næsta greinSelfoss missti Fjölni uppfyrir sig