Selfoss tók á móti FH í Olísdeild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld. Eftir hörkuleik afgreiddu gestirnir málin á síðustu fimm mínútunum.
Selfyssingar voru sprækir í upphafi og skoruðu fyrstu fjögur mörkin en FH jafnaði 9-9 þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Liðin skiptust á um að hafa forystuna í kjölfarið en FH leiddi í hálfleik, 17-18.
Í seinni hálfleik tóku FH-ingar snemma frumkvæðið en Selfyssingar voru aldrei langt undan og þegar tæpt korter var liðið jöfnuðu heimamenn 28-28. Eftir það var jafnræði með liðunum en síðustu fimm mínúturnar voru hins vegar skelfilegar hjá Selfyssingum, þeir skoruðu ekki mark á þessum kafla og FH breytti stöðunni úr 32-32 í 32-37, sem urðu lokatölur leiksins.
Selfyssingar sitja nú í 8. sæti deildarinnar með 11 stig en FH er í 3. sæti með 18 stig.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 8 og sendi 5 stoðsendingar, Hannes Höskuldsson skoraði 5 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson, Ísak Gústafsson og Elvar Elí Hallgrímsson 2 og þeir Karolis Stropus og Sverrir Pálsson skoruðu eitt mark hvor en Sverrir var drjúgur í vörninni með 7 löglegar stöðvanir og 3 blokkeruð skot.
Jón Þórarinn Þorsteinsson og Vilius Rasimas vörðu báðir 6 skot í marki Selfoss. Jón Þórarinn var með 27% markvörslu og Vilius með 25%.