Selfoss vann sætan sigur á ÍBV í lokaumferð Pepsideildar kvenna í knattspyrnu í dag, 1-0 á Selfossvelli.
„Þetta var ekki fallegt, sjálfsagt einn af okkar slakari leikjum í sumar en við skoruðum mark og það er það sem skiptir máli í þessu,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Leikurinn var markalaus alveg fram í uppbótartíma að Selfyssingar fengu vítaspyrnu. Fram að því hafði ÍBV haft töglin og hagldirnar í leiknum án þess að ná að skora.
Magdalena Reimus fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.
Selfoss lauk leik í 6. sæti deildarinnar með 20 stig en liðið er nýliði í deildinni.