Skráning hafin í frjálsíþróttaskólann

Krakkarnir í frjálsíþróttaskólanum 2019 ásamt umsjónarmönnum og gestaþjálfurum. Ljósmynd/Aðsend

Í sumar verður Frjálsíþróttaskóli UMFÍ starfræktur í tólfta sinn á Selfossi, dagana 21.-25. júní.

Búið er að opna aftur fyrir skráningar í skólann eftir biðstöðu síðustu tvo mánuði. Þátttakendur í skólanum eru á grunnskólaaldri og því eru engin höft á íþróttastarfseminni hjá þeim. Ávallt hefur verið mikið lagt upp úr hreinlæti í skólanum ásamt því sem fyrirmælum almannavarna verður fylgt.

Skólinn hefst á sunnudegi og lýkur um hádegi á fimmtudegi og komast 60 krakkar að í honum. Dagskrá skólans er fjölbreytt og skemmtileg, í bland við frjálsíþróttaæfingar er til dæmis farið í sund, ýmis konar leiki s.s. ljósmyndaratleik og hópefli, haldnar kvöldvökur og endar skólinn svo með frjálsíþróttamóti.

Þátttökugjald er 25.000 kr. (20.000 kr fyrir systkini) en innifalið í því er kennsla, fæði, gisting ofl.  Aðalumsjónarmenn líkt og undafarin ár eru Ágústa Tryggvadóttir og Fjóla Signý Hannesdóttir. Einnig munu fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn vinna við sumarbúðirnar. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Skráning fer fram í gegnum tölvupóst frjalsithrottaskoli@gmail.com.

Fyrri greinMér er lífsins ómögulegt að rífast
Næsta greinGöngustígur og útsýnispallur við Gullfoss endurnýjaðir