Hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn fer fram á Laugarvatni laugardaginn 31. ágúst en þetta er í áttunda sinn sem keppnin er haldin.
Um það bil 500 keppendur eru nú þegar skráðir til leiks og munu þeir hjóla eftir mikið endurbættum vegum uppsveita Árnessýslu.
Keppnin verður ræst klukkan 16:00 þetta árið og vert er að vekja athygli vegfarenda á svæðinu í kringum Laugarvatn og Bláskógarbyggð að frá og með klukkan 16:00 má búast við stuttum umferðatöfum.
Áttunda árið í röð
KIA Gullhringurinn er á örfáum árum orðin eitt umfangsmesta og skemmtilegasta hjólreiðamót landsins en þar keppa jafnt byrjendur sem lengra komnir. Hjólað er frá Laugarvatni, leið sem í daglegu tali er kölluð gullhringurinn þ.e.a.s Gullfoss, Geysir og Þingvellir, og er hjólað um eitthvert fallegasta og gróðursælasta hérað landsins.
Umferðartafir
Vegna keppninar má búast við tímabundnum töfum á umferð í gegnum Laugarvatn á tímabilinu frá 15:30 til 16:30 og aftur frá 18:00 til 20:00. Tímabundin lokun verður í vesturátt frá Biskupstungnabraut að Laugarvatni á tímabilinu 15:45 til 16:30. (Hægt að keyra niður Biskupstungnabraut og upp frá Svínavatni eða um Reykjaheiði) Opið verður fyrir umferð frá Laugarvatni að Biskupstungnabraut. Lokað verður fyrir umferð í báðar áttir frá Svínavatni að Laugarvatni á tímabilinu 18:30 til 19:30 en þá verður hægt að koma að Laugarvatni lengri leiðina yfir Reykjaheiði.
Skráning á netinu
Skráningu í KIA Gullhringinn lýkur á þriðjudag klukkan 23:59 og hægt er að skrá sig á www.kiagullhringurinn.is.