Selfyssingar unnu tíu marka skyldusigur á Fylki í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Árbænum voru 18-28.
Eins og svo oft áður voru Selfyssingar lengi í gang í leiknum og eftir tuttugu mínútna leik var staðan jöfn, 6-6. Þá loksins spýttu Selfyssingar í lófana og skoruðu átta mörk í röð gegn engu marki heimamanna og staðan var 6-14 í hálfleik.
Fylkir minnkaði muninn í 11-16 á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks og hélst munurinn svipaður næstu tíu mínúturnar. Selfyssingar tóku sig hins vegar á undir lokin og unnu síðustu tíu mínúturnar 2-6, og uppskáru þannig öruggan tíu marka sigur.
Einar Pétur Pétursson nýtti sín skot til fullnustu og var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk. Matthías Örn Halldórsson skoraði 5, Einar Sverrisson 4, Gunnar Ingi Jónsson, Sigurður Már Guðmundsson og Hörður Másson 3, Andri Már Sveinsson og Örn Þrastarson 2 og Gústaf Lilliendahl 1.
Helgi Hlynsson varði 16/1 skot og var með 50% markvörslu og Hermann Guðmundsson varði 2 skot og var með 66% markvörslu.
Selfoss hefur nú 23 stig í 4. sæti deildarinnar, þegar tvær umferðir eru eftir. Grótta sigraði Víking í kvöld og fylgir í humátt eftir með 22 stig. Selfoss og Grótta eigast við á Selfossi á föstudaginn og þurfa Selfyssingar á sigri að halda í þeim leik, ætli þeir sér í umspilið um sæti í N1 deildinni.