Haukar stöðvuðu sigurhrinu Hamars í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld. Liðin mættust á Ásvöllum og höfðu Haukar sigur, 72-66.
Byrjunin varð Hamri að falli í þessum leik því Haukar tóku völdin í upphafi leiks, skoruðu sjö fyrstu stigin og komust í 11-5. Staðan var 21-14 að loknum 1. leikhluta og ekki tók betra við í 2. leikhluta. Hamar skoraði einungis tíu stig í leikhlutanum en Samantha Murphy skoraði átta þeirra. Haukar juku forskotið í 34-19 um miðjan leikhlutann og leiddu í hálfleik 38-24.
Hamarskonur hresstust nokkuð í 3. leikhluta. Haukar skoruðu sjö stig í röð í upphafi hans og komust í 45-27 en þá hrökk Hamar í gang og raðaði niður körfunum. Þegar 3. leikhluta lauk hafði Hamar minnkað muninn niður í sjö stig, 55-48.
Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. Hamar minnkaði muninn í 57-56 á fyrstu tveimur mínútunum og komust yfir 61-64 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Haukar svöruðu með tveimur þristum í röð en Marín Laufey Davíðsdóttir minnkaði muninn í 68-66 þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum. Nær komust Hamarskonur ekki því Haukar kláruðu leikinn á vítalínunni.
Katherine Graham var best hjá Hamri með þrefalda tvennu; 22 stig, 11 stoðsendingar og 10 fráköst. Samantha Murpy skoraði 17 stig, Marín Davíðsdóttir 10 og Fanney Guðmundsdóttir 8.