Slæm byrjun í seinni hálfleik gerði út um vonir Selfoss

Katla María Magnúsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss heimsótti Hauka á Ásvelli í Olísdeildinni í handbolta í dag. Þetta var hörkuleikur en Haukar stungu af í seinni hálfleik og sigruðu.

Selfyssingar léku vel á löngum köflum í fyrri hálfleik, jafnræði var með liðunum í upphafi en Haukar voru lengst af 1-2 mörkum á undan. Þegar rúmt korter var liðið náði Selfoss frábæru 6-1 áhlaupi og breytti stöðunni í 12-15 en Haukar svöruðu fyrir sig og leiddu í leikhléi, 19-18.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks urðu Selfyssingum að falli í leiknum því Haukar skoruðu fyrstu fimm mörkin og skyndilega var staðan orðin 24-18. Selfoss sýndi klærnar á lokakaflanum en munurinn var orðinn of mikill og lokatölur leiksins urðu 35-30.

Katla María Magnúsdóttir var nánast óstöðvandi í liði Selfoss, skoraði 11/2 mörk og var langmarkahæst. Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 6, Rakel Guðjónsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir 4, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Kristín Una Hólmarsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir og Adela Eyrún Jóhannsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Cornelia Hermansson varði 11/1 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 6 stig en Haukar eru í 5. sæti með 12 stig.

Fyrri greinÆgir og Hamar upp um deild
Næsta greinSkellur í fyrstu umferð