Hamar tapaði naumlega fyrir Skallagrími í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Hveragerði.
Hamarsmenn voru ekki með í upphafi leiks, Skallagrímur komst í 2-17 og leiddi 20-32 að loknum 1. leikhluta. Þá vaknaði Hamar, þeir minnkuðu muninn í þrjú stig, 38-41, en staðan var 44-54 í hálfleik.
Skallagrímur byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og jók muninn aftur í nítján stig, 52-71, en þá kom sveifla til baka frá Hamri og þegar fjórar og hálf mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 81-83. Gestirnir úr Borgarnesi voru hins vegar sterkari á lokasprettinum og sigruðu að lokum, 89-96.
Björn Ásgeir Ásgeirsson var bestur hjá Hamri í kvöld, skoraði 27 stig og Dareial Franklin var sömuleiðis sterkur með 23 stig og 8 fráköst.
Hamar er áfram í 9. sæti deildarinnar með 6 stig en Skallagrímur er í 7. sæti með 18 stig.
Tölfræði Hamars: Björn Ásgeir Ásgeirsson 27, Dareial Franklin 23/8 fráköst, Benoný Svanur Sigurðsson 18/8 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 10, Daníel Sigmar Kristjánsson 4, Baldur Freyr Valgeirsson 3, Daði Berg Grétarsson 2/6 fráköst/6 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 2.