Sláin yfir í fyrsta tapi Selfoss

Katrín Ágústsdóttir umkringd Skagakonum í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild kvenna í knattspyrnu í sumar þegar liðið fékk ÍA í heimsókn á Selfossvöll.

Heimakonur voru ekki á tánum í upphafi leiks og strax á 2. mínútu komust Skagakonur yfir eftir fyrirgjöf frá hægri sem sigldi framhjá öllum varnarmönnum Selfoss og á lausan mann á fjærstönginni.

Sóknaruppbygging Selfoss gekk illa í fyrri hálfleiknum og ÍA var sterkari aðilinn. Gestirnir skoruðu sitt annað mark á 17. mínútu, aftur kom fyrirgjöf frá hægri sem Karen Rós Torfadóttir, markmaður Selfoss, misreiknaði og sóknarmaður ÍA renndi boltanum í tómt markið.

Staðan var 0-2 í hálfleik og baráttan hélt áfram í seinni hálfleiknum. Á 63. mínútu misstu Skagakonur boltann aftarlega á vellinum og Guðrún Þóra Geirsdóttir renndi honum innfyrir á Auði Helgu Halldórsdóttir sem skoraði af öryggi, sitt fjórða mark í sumar.

Selfoss leitaði allt hvað af tók að jöfnunarmarkinu og komust hrikalega nálægt því í uppbótartímanum þegar Selfoss fékk hornspyrnu og Ásdís Þóra Böðvarsdóttir skallaði í þverslána og yfir. Nokkrum sekúndum síðar var leikurinn flautaður af og ÍA fagnaði 1-2 sigri.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 5 stig en ÍA er í 3. sæti með 6 stig.

Fyrri greinTveir Íslandsmeistaratitlar í hús eftir helgina
Næsta greinUppsveitir komust ekki á blað