Sláttur hefst miklu fyrr en venjulega

Flatirnar á Svarfhólsvelli við Selfoss voru slegnar með handsláttuvél í gær. Flatirnar eru orðnar loðnar, ótrúlega þéttar og fallegar miðað við árstíma.

Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS, segir að völlurinn komi svakalega vel undan vetri. „Það hefur aldrei áður verið slegið svona snemma. Fyrsti sláttur hefur venjulega verið í kringum 1. maí. Það er alveg ljóst að Svarfhólsvöllur verður betri en nokkurn tíman áður ef veður helst þokkalegt,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is.

Sömu sögu er að segja um íþróttavelli Árborgar, sem golfklúbburinn sér um að slá. „Við ætlum að slá aðalvöllinn á Selfossi á morgun, hann er orðinn kafloðinn og flottur. Það er langt á undan áætlun. Í fyrra var hann sleginn 30. apríl og það var of snemmt í það skiptið,“ sagði Hlynur sem horfir björtum augum til sumarsins.

Fyrri greinMikil vonbrigði með stefnu ríkisstjórnarinnar
Næsta greinHrafnslaupur á óvenjulegum stað