Smári stal sjómannadagsgleðinni frá Stokkseyringum

Úr leik hjá Stokkseyringum í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar eru enn í leit að fyrsta sigri sínum í 5. deild karla í knattspyrnu en í dag tóku þeir á móti Smára á Stokkseyrarvelli.

Það var búist við sjómannadagsgleði á vellinum í dag en það voru gestirnir sem héldu kampakátir heim með 1-9 sigur í farteskinu.

Smáramenn röðuðu inn mörkum í fyrri hálfleiknum, voru komnir í 0-2 eftir átján mínútur og þegar tæpur hálftími var liðinn var staðan orðin 0-4. Sindri Þór Arnarson minnkaði muninn fyrir Stokkseyri á 31. mínútu en Smári átti lokaorðið í fyrri hálfleik og staðan var 1-5 í leikhléi.

Á 46. mínútu fékk Jóhann Fannar Óskarsson að líta sitt annað gula spjald þannig að Stokkseyringar léku allan seinni hálfleikinn manni færri. Smári skoraði sjötta markið í upphafi seinni hálfleiks og á síðustu tuttugu mínútunum bættu gestirnir þremur mörkum við. Lokatölur 1-9.

Staðan í riðlinum er þannig að Stokkseyri er án stiga á botninum eftir fjóra leiki en Smári er í 2. sæti með 10 stig, einu stigi á undan KFR.

Fyrri greinHalla Tómasdóttir fékk 35,3% atkvæða í Suðurkjördæmi
Næsta greinGular og appelsínugular viðvaranir í vikunni