Smiðjan stendur við bakið á Stokkseyringum

Ari Klængur og Atli Rafn ásamt Sveini í Smiðjunni. Ljósmynd/Stokkseyri

Stjórnarmenn knattspyrnudeildar Stokkseyrar héldu pennum á lofti nánast óslitið alla síðustu viku en ein stærstu tíðindin voru þau að félagið skrifaði undir samstarfssamning við Smiðjuna brugghús.

„Smiðjan er virkilega öflugur bakhjarl og þessi samningur styrkir fjárhagslegan grundvöll knattspyrnudeildar Stokkseyrar og mun aðstoða deildina við að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir því að reka okkar metnaðarfulla starf til næstu þriggja ára,“ sagði Atli Rafn Viðarsson, stjórnarmaður hjá Stokkseyri, í samtali við sunnlenska.is.

Atli Rafn og Ari Klængur Jónsson, heimsóttu Svein Sigurðsson í Smiðjuna í Vík í Mýrdal þar sem gengið var frá samningnum.

Stokkseyringar létu ekki þar við sitja heldur gengu þeir einnig frá samstarfssamningi við Errea í síðustu viku og frumsýndu nýjan varabúning liðsins. Nýr aðalbúningur verður tekinn í notkun á næsta ári og vörur merktar Stokkseyri verða til sölu í vefverslun Errea.

Ari Klængur og Ágúst Aron Gunnarsson ásamt Þorvaldi Ólafssyni framkvæmdastjóra Errea. Ljósmynd/Stokkseyri
Fyrri greinFramkvæmd samræmdu prófanna óásættanleg
Næsta greinÞrír nemendur frá GÍH unnu til verðlauna