Þórsarar unnu góðan sigur á Stjörnunni í stórleik Domino's-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Eftir hörkuleik höfðu heimamenn sigur, 105-100.
Leikurinn var í járnum allan tímann en Þórsarar voru skrefi á undan í upphafi og leiddu 21-13 þegar rúmar sex mínútur voru liðnar af leiknum. Stjarnan svaraði þá með þrettán stigum í röð og staðan var 21-26 að 1. leikhluta loknum. Þór komst yfir aftur þegar 2. leikhluti var rúmlega hálfnaður en Stjarnan skoraði síðustu fimm stigin í fyrri hálfleik og staðan í leikhléinu var 47-47.
Þórsarar mættu betur stemmdir í síðari hálfleikinn og náðu mest sextán stiga forskoti undir lok 3. leikhluta. Ben Smith hafði þá flutt lögheimili sitt á vítalínuna í Vatnshöllinni en hann skoraði sextán stig í leikhlutanum þar sem ellefu stig komu úr vítaskotum.
Munurinn jókst enn frekar í upphafi síðasta fjórðungsins þar sem Þór komst í 82-66 en Stjarnan svaraði þá með 6-20 áhlaupi og leikurinn var kominn aftur í gang. Munurinn var þá kominn niður í tvö stig en Þórsarar náðu að halda aftur af Stjörnunni og aftur sýndi Smith hvað í sér bjó á vítalínunni. Smith tók leikinn í sínar hendur og skoraði fjórtán stig á síðustu tveimur mínútunum.
Smith skoraði 43 stig í leiknum en næstur honum kom David Jackson með 29 stig. Guðmundur Jónsson skoraði 12, Darrell Flake 8 og Þorsteinn Már Ragnarsson 7.
Af Sunnlendingunum í liði Stjörnunnar má nefna að Justin Shouse skoraði 32 stig, KJ skoraði 10 og Marvin Valdimarsson 3 en Marvin kom aftur inn í leikmannahóp Stjörnunnar í gær.