Hamar tók á móti toppliði Snæfells í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Snæfell sigraði 79-91 og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn.
Snæfell byrjaði betur í leiknum og komst í 7-21 í 1. leikhluta, en staðan að honum loknum var 20-28. Snæfell jók muninn í mest sautján stig í 2. leikhluta, 31-48, en Hamar svaraði með sjö stigum í röð og staðan var 38-49 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var hnífjafn og Hvergerðingum tókst ekki að draga á Snæfell. Munurinn var í kringum tíu stig allan seinni hálfleikinn og lokatölur 79-91.
Chelsie Schweers var stigahæst hjá Hamri með 23 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 20, Íris Ásgeirsdóttir 19, Marín Laufey Davíðsdóttir 13 og þær Sóley Guðgeirsdóttir og Jenný Harðardóttir skoruðu báðar 2 stig.