Hamar og Snæfell áttust við í hörkuleik í Lengjubikar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Snæfell hafði betur, 78-89.
Leikurinn var jafn framan af, Snæfell komst í 2-9 en Hamar minnkaði muninn jafnharðan og staðan var 15-17 að loknum 1. leikhluta.
Fyrst skildi á milli liðanna að einhverju ráði í upphafi 2. leikhluta þar sem Snæfell náði 2-13 áhlaupi og breytti stöðunni í 19-33. Meiri varð munurinn aldrei í leiknum og Hamar náði að minnka forskot gestanna fyrir hálfleik niður í 33-45.
Hamar byrjaði vel í síðari hálfleik með 13-4 rispu og eftir hana var staðan 46-49. Í kjölfarið var þriðji leikhlutinn í járnum og staðan að honum loknum 58-61.
Heimamenn náðu ekki að láta kné fylgja kviði í síðasta fjórðungnum því gestirnir voru skrefinu á undan allan tímann þó að munurinn hafi verið lítill. Lokatölur voru 78-89 en gestirnir skoruðu síðustu fjögur stigin í leiknum.
Jerry Lewis Hollis var stigahæstur Hamarsmanna með 27 stig, Hjalti Valur Þorsteinsson skoraði 11, Lárus Jónsson, Örn Sigurðarson og Ragnar Nathanaelsson skoruðu allir 9 stig, Bjartmar Halldórsson 5, Bjarni Rúnar Lárusson 4 og Halldór Gunnar Jónsson 4.