Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð í dag danskur unglingameistari í stúlknaflokki 15-17 ára í 200 metra skriðsundi.
RÚV greinir frá þessu.
Snæfríður Sól var mjög nálægt íslenska stúlknametinu sem Eygló Ósk Gústafsdóttir setti árið 2012. Snæfríður fór 200 metrana á 2:03,19 mínútum en Eygló heldur metinu með tíma sem er 11/100 úr sekúndu betri. Snæfríður sigraði með yfirburðum og var tveimur sekúndum á undan þeirri sem lenti í öðru sæti.
Snæfríður Sól syndir fyrir Hamar í Hveragerði á Íslandi en þar æfði hún í sex ár áður en hún flutti til Danmerkur. Nú syndir hún fyrir AGF í Árósum.