Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð í 13. sæti í 100 m skriðsundi á heimsmeistaramótinu í 25 m laug í Búdapest í Ungverjalandi í dag.
Í undanrásum í morgun hafði Snæfríður bætt Íslandsmet sitt í greininni um 0,34 sekúndur og hún gerði enn betur í undanúrslitasundinu nú síðdegis. Hún synti á tímanum 52,68 sekúndur og bætti Íslandsmetið um 0,09 sekúndur. Frábært sund hjá Snæfríði og frábær árangur.
Sterkasta grein Snæfríðar Sólar er 200 m skriðsund og mun hún keppa í þeirri grein á heimsmeistaramótinu næstkomandi sunnudag.