Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir er í feiknaformi þessa dagana en hún varð um helgina fyrsta íslenska konan til þess að synda 200 m skriðsund undir tveimur mínútum.
Snæfríður keppti um helgina á Vest-danska meistaramótinu í sundi og sigraði hún í 200 m skriðsundi á tímanum 1:59,75 mín. Hún átti sjálf fyrra Íslandsmetið, 2:00,20 mín sem hún setti á Ólympíuleikunum í Tokyo árið 2021.
Bætti 14 ára gamalt Íslandsmet
Þetta var ekki eina Íslandsmet Snæfríðar um helgina því hún bætti einnig metið í 100 m skriðsundi, þegar hún synti fyrsta sprett í 4×100 m skriðsundi með A-sveit Aalborg Svømmeklub. Snæfríður synti á tímanum 55,61 sek en fyrra Íslandsmetið var orðið fjórtán ára gamalt, en það átti Ragnheiður Ragnarsdóttir, 55,66 sek. Snæfríður og stöllur hennar í A-sveit AS sigruðu í boðsundinu.
Snæfríður náði svo í enn ein gullverðlaunin þegar hún sigraði í 100 m skriðsundi kvenna í dag á tímanum 55,82 sek.