Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð í 15. sæti í 200 m skriðsundi á Ólympíuleikunum í París.
Hún synti í undanúrslitum í kvöld á tímanum 1:58,78 sek, sem er um einni sekúndu frá Íslandsmeti hennar og örlítið lakari tími en í undanrásunum í morgun. Snæfríður Sól er fimmti íslenski sundmaðurinn til þess að komast í undanúrslit á Ólympíuleikum.
„Þetta fer í reynslubankann. Það er svo stórt að vera hér og vera í undanúrslitum. Maður verður að læra á þetta þannig ég set þetta sem góða reynslu,“ sagði Snæfríður í viðtali við Ríkissjónvarpið eftir sundið í kvöld. „Ég var aðeins of hrædd og byrjaði ekki nógu hratt. Mér fannst ég alveg geta aukið vel í lokin og hefði kannski þurft að byrja hraðar.“
Snæfríður Sól keppir einnig í 100 m skriðsundi á Ólympíuleikunum en undanrásir þar fara fram á þriðjudagsmorgun.