Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur verið valin sundkona ársins 2024 af Sundsambandi Íslands.
Snæfríður Sól er 24 ára gömul og syndir fyrir Aalborg Svømmeklub í Danmörku. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ, þegar hún varð í 4. sæti í 200 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í júní.
Snæfríður Sól tók þátt í Ólympíuleikunum í París í júlí og ágúst. Þar synti hún 200 m skriðsund og komst í undanúrslit en varð í fimmtánda sæti af öllum keppendum. Hún synti einnig 100 m skriðsund og hafnaði í 19. sæti.
Í desember 2024 keppti Snæfríður Sól á Heimsmeistaramótinu í 25 m laug í Búdapest þar sem hún varð í 13. sæti í 100 m skriðsundi og tvíbætti Íslandsmetið í þeirri grein. Snæfríður keppti einnig í 200 m skriðsundi og varð í 14. sæti í þeirri grein.
Snæfríður Sól setti samtals 4 Íslandsmet á árinu. Hún er í 7. sæti á lista yfir hröðustu sundkonur í 200 m skriðsundi í Evrópu í 25 m laug. Hún er í 9. sæti á sama lista í 100 m skriðsundi í 25m laug. Snæfríður er í 15. sæti á Evrópulistanum í 200 m skriðsundi í 50 m laug.
Sundmaður ársins 2024 er Anton Sveinn McKee úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, sjöunda árið í röð. Eins og Sunnlendingum er kunnugt er Anton ættaður frá Selfossi í móðurættina.