Selfoss vann sinn annan leik í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar Sindri frá Hornafirði kom í heimsókn í Gjána á Selfossi, 86-70.
Selfyssingar höfðu frumkvæðið stærstan hluta leiksins og leiddu í leikhléi 45-34. Munurinn breyttist lítið í 3. leikhluta en Selfyssingar bættu í í síðasta fjórðungnum og unnu öruggan sigur.
Snjólfur Stefánsson átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 28 stig og tók 11 fráköst. Svavar Stefánsson skoraði 19 stig, Michael Rodriguez 17 og Arminas Kelmelis 13.
Selfoss er í 6. sæti 1. deildarinnar með 4 stig en Sindri er í 7. sætinu með 2 stig.