Sunnlendingar byrja torfæruárið vel en Snorri Þór Árnason og Ívar Guðmundsson sigruðu örugglega á Sindratorfærunni sem fram fór við Hellu um síðustu helgi.
Það voru Flugbjörgunarsveitin á Hellu og Torfæruklúbbur Suðurlands sem stóðu að keppninni sem fór vel fram. Um 2.500 manns mættu til þess að berja 26 keppendur aukum
Mikið var um tilþrif og skemmtu keppendur sem og áhorfendur sér konunglega. Keppnin fór fram á tveimur dögum, þar sem öll helgin var undir en bæði var um að ræða alþjóðlegt FIA NEZ mót og 1. umferðina á Íslandsmótinu. Eknar voru tólf brautir þar á meðal áin og mýrin. Keppendur komu frá Íslandi og Noregi og stóðu þeir norsku hressilega í þeim íslensku.
Snorri Þór var öruggur sigurvegari í sérútbúna flokknum á Kórdrengnum bæði á Íslandsmótinu og FIA NEZ mótinu og Guðmundur Arnarson náði frábærum árangri í sinni fyrstu keppni á Ljóninu en hann varð þriðji á Íslandsmótinu og fjórði á FIA NEZ mótinu. Á eftir honum kom Haukur Þorvaldsson á Sápunni, sem er gamli bíllinn hans Hauks, Jókerinn, eftir þrif.
Daníel G. Ingimundarson á Green Thunder varð í 12. sæti í Íslandsmótinu og 14. sæti á FIA NEZ mótinu og Geir Evert Grímsson var sömuleiðis í neðri hlutanum á Sleggjunni en hann varð í 16. sæti á Íslandsmótinu og 18. á FIA NEZ mótinu.
Í götubílaflokknum hafði Ívar Guðmundsson á Kölska mikla yfirburði og sigraði með 1.300 stig, heilum 523 stigum á undan næsta manni. Kata Gunnvör Magnúsdóttir keppti í sinni fyrstu keppni á Hulk og komst á verðlaunapall, í 3. sætið. Eðvald Orri Guðmundsson komst hins vegar í hann krappann og velti harkalega í tímabrautinni á laugardeginum þannig að Pjakkurinn hreyfðist ekki meira þá helgina.
Hér að neðan eru myndbönd frá Jakob Cecil Hafsteinssyni með tilþrifum beggja keppnisdaganna og neðst er myndband af ævintýrum Orra á Pjakknum.
Staðan á Íslandsmótinu í torfæruakstri eftir eina umferð:
Sérútbúnir:
1 Snorri Þór Árnason, Kórdrengurinn, 20 stig
2 Ólafur Bragi Jónsson, Refurinn, 15 stig
3 Guðmundur Ingi Arnarsson, Ljónið, 12 stig
4 Haukur Þorvaldsson, Sápan, 10 stig
5 Guðni Grímsson, Kubbur, 8 stig
6 Þór Þormar Pálsson, Spiderman, 6 stig
7 Svanur Örn Tomasson, Insane, 4 stig
8 Bjarki Reynisson, Dýrið, 3 stig
9 Elmar Jón Guðmundsson, Heimasætan, 2 stig
10 Alexander Már Steinarsson, All-In, 1 stig
Götubílar:
1 Ívar Guðmundsson, Kölski, 20 stig
2 Haukur Birgisson, Þeytingur, 15 stig
3 Kata Gunnvör Magnúsdóttir, Hulk, 12 stig
4 Eðvald Orri Guðmundsson, Pjakkurinn, 10 stig