Torfærusumarið 2021 hófst síðastliðinn laugardag með Sindratorfærunni á Hellu. Þar kepptu átján keppendur í tveimur flokkum í æsispennandi keppni.
Engir áhorfendur voru leyfðir í brekkunum en þess í stað var keppnin í beinni á motorsport.is og fylgdust um 3.000 manns með útsendingunni, sem var vel heppnuð.
Æsispenna í sérútbúna flokknum
Keppnin í sérúbúna flokknum var æsispennandi þar sem Ólafur Bragi Jónsson á Refnum, Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum og heimsmeistarinn Skúli Kristjánsson á Simba börðust um toppsætið. Snorri leiddi framan af og sló meðal annars heimsmetið í hraða á vatni þegar hann sigldi Kórdrengnum á 103 km/klst hraða „á ánni“, eins og torfæruáhugamenn kalla Hróarslæk.
Snorri Þór náði hins vegar ekki að klára mýrina og þá skaust Ólafur Bragi á toppinn og tryggði sér sigurinn og Skúli fylgdi fast á eftir. Ólafur Bragi hlaut 1.680 stig, Skúli 1.599 og Snorri Þór 1.550. Þar á eftir komu þeir Guðmundur Elíasson á Ótemjunni, Ásmundur Ingjaldsson á Bombunni og Sigurður ingi Sigurðsson á JIBBIIIII. Ingvar Jóhannesson á Víkingnum hlaut tilþrifaverðlaun í sérútbúna flokknum eftir glæsileg tilþrif í þriðju braut þar sem hann snéri sér í nokkra hringi og endaði á hjólunum.
Strumpurinn komst yfir mýrina
Í götubílaflokknum byrjaði Íslandsmeistarinn Steingrímur Bjarnason á Strumpnum titilvörnina vel. Hann sigraði örugglega, kláraði ánna með miklum sóma og mýrina í fyrsta skipti á ævinni, sem væri ekki sögulegt nema fyrir það að Steingrímur hefur keppt á Hellu í á annan tug skipta. Steingrímur hlaut einnig Helluna, farandbikar keppninar fyrir flest stig eftir daginn og tilþrifaverðlaun. Í öðru sæti í götubílaflokknum var Páll Pálsson en sneri aftur eftir 11 ára hlé. Páll velti bíl sínum í 2. braut og átti ekki möguleika á að ná Steingrími eftir það, og það sama gerði Haukur Birgisson á Þeytingi sem velti reyndar það illa að hann þurfti að hætta keppni, en varð þrátt fyrir það í 3. sæti.
Þetta var í 45. skiptið sem Flugbjörgunarsveitin á Hellu stendur fyrir torfærukeppni á Hellu og í fyrsta skipti sem áhorfendur geta einungis setið heima í stofu til þess að fylgjast með. Framkvæmdin var mikil áskorun fyrir sveitina en keppnin og útsendingin þóttist heppnast afar vel.