Í kvöld hefst einvígi Hamars og FSu um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á komandi leiktíð. Liðið sem fyrr vinnur tvo leiki fer upp um deild.
Liðin hafa mæst þrisvar í deildinni í vetur og hafa viðureignirnar verið tilþrifamiklar og spennandi. Hamar vann fyrsta leikinn í Hveragerði, 84-78, FSu vann þann næsta 95-87 í Iðu en Hamar vann þriðja leikinn í Iðu, 79-98.
Flautað verður til leiks í Hveragerði í kvöld kl. 19:15. Leikur tvö verður í Iðu, sunnudaginn 12. apríl kl. 19:15, og komi til þriðja leiksins, sem við reiknum fastlega með, verður hann í Hveragerði miðvikudaginn 15. apríl kl. 19:15.
Sunnlenska.is fékk þrjá spekinga til þess að spá í komandi leiki og hallast þeir frekar að sigri Hamars, en ljóst sé að einvígið verði jafnt og skemmtilegt. Körfuboltaunnendur eiga því von á góðu næstu daga.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari deildarmeistara Hattar (og fyrrum Hamarsmaður):
„Byrjum á Hamarsliðinu, þeir eru með sína styrkleika inní teig í þeim Erni og Steina á meðan þeir eru ekki eins sterkir í bakvarðastöðunum en liðið hefur bætt miklu við sig að fá Lalla Jóns heim og getur það ráðið úrslitum í þessari seríu, Lalli er góður leikstjórnandi og hefur mjög mikla reynslu sem á pottþétt eftir að hjálpa liðinu. FSu liðið er illviðráðanlegt á góðum degi. Þeirra styrkleiki er í bakvörðunum sem flestir geta skotið vel fyrir utan. Ég tel að FSu hafi forskot í bakvarðastöðunum en þeirra veikleikar eru klárlega inní teig, ég gæti trúað því að FSu eigi eftir að spila töluvert 1-3-1 svæði hvort sem er með eða án pressu í þessu einvígi. Þannig gætu Hamarsmenn lent í vandræðum með að dekka bakverðina í FSu.
Ef Hamar ætlar að vinna sér sæti í efstu deild þá þarf Örn Sig sem er algjör lykilmaður hjá Hamri að eiga góða leiki og Lalli Jóns mun þurfa að stjórna sóknarleiknum vel sem hefur verið svolítið rokkandi hjá Hamarsliðinu í vetur.
Ef FSu ætlar sér sigur þá þurfa þeir að halda háu tempói í leikjunum og fá risa framlag frá Ara Gylfa og Collin Pryor í öllum leikjum. Það mun mikið mæða á Ara og Collin, þeir þurfa að eiga algjöra toppleiki til að FSu fari upp.
Mín spá er 2-1 fyrir Hamar í jöfnu og skemmtilegu einvígi.“
Gestur Einarsson, íþróttafréttamaður og Gnúpverji:
„Þetta verður skemmtilegasta einvígið í sögu íþrótta á 21. öldinni á Suðurlandi. Bæði lið eru mjög sterk og með fullt af leikmönnum til að klára leiki en ef ég þyrfti að giska á hvort liðið hefði betur í úrslitakeppni þá væri það eins og að velja hvort barnið sitt maður elskar meira (þar sem lið Gnúpverja er ekki að keppa í þessari rimmu).
Fyrri viðureignir þessa tveggja liða eru búnar að bjóða upp bestu skemmtun sem hægt er að biðja um í körfuboltanum á þessari leiktíð, alveg óútreiknalegir leikir. Bæði lið hafa verið að spila mjög góðan körfubolta en Hamarsmenn hafa verið stöðugri að mínu mati á þessu ári sem á eftir að skila þeim 2-0 sigri í einvíginu. Þeir eiga aðallega eftir að vinna á stemmningu frá stuðningmönnum sínum sem hafa veitt Hamri auka kraft þegar þeir hafa þurft mest á að halda.
Hamar er með reynslumeiri leikmenn og eftir að reynsluboltinn Lárus Jónsson bættist í leikmannahóp Hamars á lokametrunum tel ég að Hamar hafi betur.
FSu á fjóra leikmenn sem spila ekki í unglingaflokki og eru það frændurnir Ari Gylfason og Hlynur Hreinsson auk Brúnastaðatröllsins Arnþór Tryggvasson og Kanans Collin Pryor. Ef frændurnir ná sér ekki á strik mun FSu lenda í vandræðum en eins og FSu sýndi á móti Val í úrslitakeppninni þá er liðið óstöðvandi ef það næst að leika sem ein heild og þá á Hamar ekki séns í FSu liðið.
Ég mæli með að allir mæti á þessa leiki því þetta verður taumlaus skemmtun frá byrjun 1. leikhluta fram í lok 4. leikhluta! Einnig verður gaman að sjá hvort Hveragerði eða Selfoss eigi betri stuðningsmenn í íþróttum því það gæti ráðið úrslitum.“
Bragi Bjarnason, fyrrum þjálfari Hamars og leikmaður FSu:
„Þetta verður hörkueinvígi sem snýst um miklu meira en bara úrvalsdeildarsæti. Bæði lið hafa verið að berjast á svipuðum stað síðastliðið ár og allir leikir þeirra hafa verið upp á líf eða dauða. Styrkleikar Hamars eru klárlega að hafa fengið Lárus Jónsson aftur inn núna á seinni hlutanum en reynsla hans og fleiri leikmanna í Hamarsliðinu á eftir að vega þungt í þessari viðureign.
FSu er með ungt og skemmtilegt lið og sennilega einn besta Kana landsins innanborðs sem erfitt verður að stoppa.
Ég spái því að þetta fari í þrjá leiki þar sem bæði lið vinna sína fyrstu heimaleiki og svo verður úrslitaleikur í Hveragerði. Hvernig hann fer tel ég að ráðist á spennustiginu og andlegum styrk leikmanna.
Fyrirfram myndi ég segja að Hamar ætti að vera sterkari þar en ef FSu liðið nær að halda fókus þá geta þeir klárað þetta því gæðin eru til staðar.
Ég hef sterkar taugar til beggja liðanna og get ómögulega sett sigurinn í seríunni fyrirfram á annað liðið. Ég held að fólk verði bara að mæta á leikina og upplifa stemmninguna sem verður þarna og svo sjáum við hvernig þetta fer.“