Sofnuðu í sex mínútur

Kristinn Ásgeir Þorbergsson í baráttunni um boltann í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar tók á móti Víði Garði í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Leikurinn var lengst af jafn, fyrri hálfleikur var markalaus og bæði lið sköpuðu sér ágæt færi. Baráttan hélt áfram í upphafi seinni hálfleiks en á 60. mínútu sofnuðu Árborgarar í sex mínútur og Víðir skoraði þrjú mörk á meðan.

Árborgarar áttu ekki afturkvæmt eftir þetta og leikurinn fjaraði fljótlega út en Víðismenn voru nær því að bæta við mörkum en Árborg að minnka muninn. Lokatölur 0-3 í sólinni á Selfossi.

Árborg tekur næst á móti Augnabliki næsta föstudag en liðin eru bæði stigalaus eftir fyrstu umferðina. Aðrir andstæðingar Árborgar í riðlinum eru Ýmir, Víkingur Ó og Ægir.

Fyrri greinHársbreidd frá stigi eftir frábæran endasprett
Næsta greinÍ kröppum dansi í Kórnum