Sögulegur sigur Selfoss

Perla María Karlsdóttir sækir að körfu ÍR. Ljósmynd/selfosskarfa.is

Kvennalið Selfoss vann sögulegan sigur á ÍR í 1. deildinni í körfubolta í gærkvöldi, 65-57. Þetta var fyrsti sigur hins nýstofnaða meistaraflokks kvenna.

Bæði lið voru án stiga fyrir leik og ljóst að þau ætluðu að selja sig dýrt, staðráðin í að ná í fyrstu stig vetrarins.

Selfyssingar voru ákveðnari á upphafsmínútunum og þær leiddu 21-17 að loknum 1. leikhluta. Gestirnir svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta, ÍR komst í 23-26, en Selfoss gerði 10-3 áhlaup og lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 33-29 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi, Selfoss náði 7 stiga forskoti í 3. leikhluta en þá kom áhlaup frá ÍR og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 48-47. Heimakonur voru hins vegar sterkari í síðasta fjórðungnum, þær komu forskotinu í tíu stig og þegar ÍR gerði sig líklegar til að ógna á lokakaflanum voru Selfyssingar komnar í bónus og röðuðu niður vítaskotunum af miklu öryggi. 65-57

Donasja Scott var stigahæst Selfyssinga með 21 stig og 15 fráköst. Anna Katrín Víðisdóttir skoraði 14 stig og Eva Rún Dagsdóttir átti sömuleiðis góðan leik þar sem hún var hársbreidd frá þrefaldri tvennu, með 13 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar.

Selfoss-ÍR 65-57 (21-17, 12-12, 15-15, 17-13)
Tölfræði Selfoss: Donasja Scott 21/15 fráköst, Anna Katrín Víðisdóttir 14, Eva Rún Dagsdóttir 13/12 fráköst/9 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 11, Elín Þórdís Pálsdóttir 5/5 fráköst, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 1, Eva Margrét Þráinsdóttir 2 fráköst.

Fyrri greinHamar í ham á heimavelli
Næsta grein„Svo er lífið náttúrulega grátbroslegt“