Karlalið Selfoss er komið í 16-liða úrslit bikarkeppni KSÍ í fyrsta skipti í 22 ár eftir 2-1 sigur á Njarðvík á Selfossvelli í kvöld.
Selfyssingar þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum gegn baráttuglöðu 2.deildar liði Njarðvíkur. Fyrri hálfleikur var rólegur framan af en þegar leið á hertu Selfyssingar tökin og áttu ágæt færi. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að Njarðvík komst yfir á 33. mínútu eftir sofandahátt í vörn Selfoss. Bæði lið áttu fín færi undir lok fyrri hálfleiks sem fóru forgörðum og staðan því 0-1 í hálfleik.
Selfyssingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og gerðu harða hríð að marki Njarðvíkur í 45 mínútur. Ísinn var loksins brotinn á 56. mínútu þegar Tómas Leifsson sendi fína fyrirgjöf frá hægri inn á vítateig þar sem Jon Andre Røyrane tók boltann á hælinn framhjá markverði Njarðvíkur.
Mínútu síðar áttu Selfyssingar að fá vítaspyrnu þegar brotið var á Viðari Erni Kjartanssyni sem var að sleppa í gegn. Aðstoðardómarinn dæmdi víti en dómari leiksins var ekki sammála því og spjaldaði Viðar fyrir leikaraskap.
Logi Ólafsson þjálfari bætti í sóknina, tók bakvörðinn Andra Frey Björnsson af velli og sendi Moustapha Cissé í framlínuna. Senegalinn frískaði þó lítið upp á sóknarleikinn en meira munaði um innkomu Jóns Daða Böðvarssonar sem eignaði sér miðjuna eftir að hann kom inná.
Heimamenn virtust vera að ná undirtökunum í leiknum og pressan jókst jafnt og þétt þar til á 79. mínútu að Njarðvíkingar komust í hörkufæri hinumegin á vellinum en skot þeirra fór rétt yfir markið.
Á 83. mínútu fékk leikmaður Njarðvíkur sitt annað gula spjald fyrir hressilega tæklingu á Røyrane – og þá voru eftir tíu.
Eftir rauða spjaldið var ekki spurning hvort, heldur hvenær Selfyssingar myndu klára leikinn. Þeir reyndu ítrekað að sauma sig í gegnum þétta vörn Njarðvíkur án árangurs en Tómas Leifsson lúrði á hægri kantinum og fékk oft mikið pláss. Hann var líka maðurinn á bakvið sigurmarkið þegar hann sendi inn á teig á Viðar, sem náði að snúa af sér varnarmann og renna boltanum framhjá markverði Njarðvíkur.
Selfyssingar hefðu getað bætt við mörkum undir lokin en Viðar og Cissé fengu báðir dauðafæri í sömu sókninni.
Eftir 22 ára hlé eru Selfyssingar komnir í pottinn þegar dregið verður í sextán liða úrslit á mánudag. Árið 1990 komst liðið í 8-liða úrslit en tapaði þar 3-2 fyrir ÍBK. Guðjón Þorvarðarson og Izudin Dervic skoruðu mörk Selfoss í leiknum, en Selfyssingar voru klaufar að afgreiða Keflvíkinga ekki í fyrri hálfleik.
32-liða úrslitunum lýkur á morgun en liðin sem verða í pottinum á mánudag eru Þór Ak eða Valur, FH eða Fylkir, Breiðablik eða BÍ/Bolungarvík, ÍA eða KR, Víkingur Ó eða ÍBV, Stjarnan, Fram, Grindavík, Víkingur R, Þróttur R, KA, Höttur, Afturelding, Reynir Sandgerði og KB.