Sóknarleikurinn allsráðandi í sigurleik

Davíð Arnar Ágústsson og Ragnar Örn Bragason stíga sigurdans. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þorlákshafnar-Þórsarar voru í miklu stuði í kvöld þegar þeir fengu Val í heimsókn í úrvalsdeild karla í körfubolta. Lokatölur í Höfninni urðu 114-98.

Það var sem sagt fátt um varnir í leiknum og hann hófst með miklum látum, 29-29 eftir 1. leikhluta. Þórsarar voru sterkari í 2. leikhluta og staðan í leikhléi var 57-48. 

Þórsarar fóru á kostum í sókninni í 3. leikhluta og juku forskotið í 93-70. Valsmenn söxuðu á forskot þeirra á lokakaflanum en munurinn var orðinn of mikill fyrir gestina. Þórsarar fögnuðu og fara glaðir inn í jólafríið. 

Nikolas Tomsick naut sín vel á gólfinu í kvöld, skoraði 35 stig og tók 10 fráköst. Kinu Rochford átti sömuleiðis góðan leik með 26 stig og 16 fráköst. Jaka Brodnik skoraði 19 stig og Ragnar Örn Bragason 13.

Þórsarar lyftu sér upp í 6. sæti deildarinnar og hafa þar 10 stig, en Valur er í 10. sætinu með 6 stig.

Fyrri greinFerðalöngum á smábíl bjargað af hálendinu
Næsta greinSturtur eru bara fyrir masókista