Sóknarleikurinn í fyrirrúmi í opnunarleik vetrarins

Follie Bogan fór á kostum í liði Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Opnunarleikur 1. deildar karla í körfubolta í vetur var viðureign Selfoss og Þórs Akureyri sem fór fram í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld.

Þessum tveimur liðum er ekki spáð góðu gengi í vetur en Selfyssingum er spáð 9. sæti og Þórsurum 10. sæti í tólf liða deild. Leikmenn liðanna virtust ekki taka spána mikið inn á sig og sýndu fín tilþrif í kvöld á báðum endum vallarins.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og leiddu nær allan 1. leikhlutann en Selfoss jafnaði með síðasta skoti leikhlutans, 30-30. Þórsarar byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust í 32-39 en Selfyssingar svöruðu hressilega fyrir sig og Follie Bogan skoraði tólf síðustu stig liðsins í leikhlutanum, 61-57 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum var allur vindur úr Þórsurum og Selfyssingar stýrðu leiknum. Þegar komið var fram í síðasta fjórðunginn jókst forskot Selfyssinga jafnt og þétt og að lokum sigruðu þeir 114-97.

Follie Bogan var stigahæstur Selfyssinga með 40 stig og 9 fráköst og Vojtéch Novák skilaði sömuleiðis góðu dagsverki með 17 stig, 8 fráköst og 4 varin skot.

Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 40/9 fráköst/5 stoðsendingar, Vojtéch Novák 17/8 fráköst/4 varin skot, Ísak Júlíus Perdue 13/5 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 10, Ari Hrannar Bjarmason 10, Fróði Larsen Bentsson 6, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 6/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 5, Ísar Freyr Jónasson 4/4 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 3, Birkir Máni Sigurðarson 2 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 1 stoðsending.

Fyrri greinÞór byrjar á heimasigri
Næsta greinNý og glæsileg yfirbygging opnuð á Stöng