Selfoss tapaði 3-1 þegar liðið heimsótti Þrótt í Laugardalinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn í leiknum og sóttu mikið en Þróttarar voru sterkir í skyndisóknunum og gerðu Selfyssingum skráveifur þannig. Þróttarar komust yfir á 21. mínútu með skoti af löngu færi eftir að Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, átti slæma sendingu fram völlinn.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Þróttur komst í 2-0 þegar korter var liðið af seinni hálfleik eftir snarpa sókn. Selfyssingar fengu vítaspyrnu strax í næstu sókn og úr henni skoraði Hrvoje Tokic. Selfyssingar héldu áfram að sækja en fengu þriðja markið í andlitið á 89. mínútu eftir darraðadans í vítateig Selfoss.
Þetta var fyrsti sigur Þróttar í sumar en þeir komast þó ekki uppfyrir Selfyssinga á töflunni. Bæði lið eru með þrjú stig í 10. og 11. sæti.
Næsti leikur Selfoss er á heimavelli gegn Gróttu, næstkomandi föstudag.