Selfoss vann algjörlega magnaðan sigur á Haukum í fyrsta leiknum í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á Ásvöllum í kvöld, 22-27.
Haukar höfðu frumkvæðið á upphafsmínútunum en um miðjan fyrri hálfleikinn náðu Selfyssingar frábærum 1-6 kafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 5-3 í 6-8. Selfoss kláraði fyrri hálfleikinn vel, vörnin var góð og sóknarleikurinn gekk nokkuð smurt en staðan var 11-14 í leikhléi.
Selfoss hélt forystunni fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks en Haukar voru sterkari á þessum kafla og jöfnuðu 17-17. Þeir vínrauðu höfðu frumkvæðið eftir það og gátu helst þakkað það Sölva Ólafssyni sem fór algjörlega á kostum í markinu. Hann varði alls 26 skot í leiknum, þar af þrjú vítaskot.
Lokakafli leiksins var algjörlega frábær hjá Selfyssingum sem skoruðu átta mörk gegn tveimur á síðustu níu mínútunum og tryggðu sér öruggan 22-27 sigur.
Sölvi Ólafsson var sem fyrr segir maður leiksins, varði 26/3 skot. Elvar Örn Jónsson var markahæstur með 6/2 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Haukur Þrastarson og Atli Ævar Ingólfsson 3 og þeir Alexander Már Egan, Nökkvi Dan Elliðason og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 2 mörk.
Næsti leikur liðanna verður í Hleðsluhöllinni á Selfossi á föstudagskvöld.