Selfyssingar sópuðu Valsmönnum 3-0 út úr undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta með 29-26 sigri í leik þrjú í Hleðsluhöllinni í kvöld. Selfoss leikur til úrslita á Íslandsmótinu í fyrsta skipti í 27 ár, annað hvort gegn Haukum eða ÍBV.
Fyrri hálfleikurinn var í járnum og jafnt á flestum tölum en Selfoss skoraði síðustu þrjú mörkin í fyrri hálfleik og leiddi 17-14 í leikhléi.
Munurinn hélst svipaður í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar spiluðu firnagóðan handbolta og á lokakaflanum náðu þeir að auka muninn í fimm mörk, 28-23. Valur átti engin svör við léttleikandi Selfyssingum sem áttu greinilega meira á tanknum á lokasprettinum.
Elvar Örn Jónsson var maður leiksins, sterkur bæði í vörn og sókn en hann skoraði 6/3 mörk fyrir Selfoss. Hergeir Grímsson skoraði 5 mörk og var firnasterkur í vörninni ásamt Sverri Pálssyni en samtals voru þeir með 19 lögleg stopp, Hergeir 11 og Sverrir 8.
Árni Steinn Steinþórsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir 4 mörk, Nökkvi Dan Elliðason og Guðni Ingvarsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 2 og Alexander Már Egan 1.
Pawel Kiepulski varði 8 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1 skot og var með 10% markvörslu.