Selfoss vann Aftureldingu í fyrstu umferð Ragnarsmóts kvenna í handbolta í Iðu í kvöld, 26-25.
Selfosskonur voru mun sterkari aðilinn allan tímann og náðu mest sex marka forystu í seinni hálfleik. Þær höfðu þó í huga að allir leikir Ragnarsmótsins eru í beinni á SelfossTV og til þess að búa til gott sjónvarp ákváðu þær að hleypa spennu í leikinn undir lokin. Afturelding saxaði á forskotið og átti síðustu sókn leiksins en skutu þá framhjá úr galopnu færi.
Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Roberta Ivanauskaitė voru markahæstar Selfyssinga með 7 mörk og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði 5. Hjá Aftureldingu var Ólöf Marín Hlynsdóttir markahæst með 6 mörk.
Í hinum leik kvöldsins vann HK öruggan sigur á Gróttu, 28-20. Staðan í hálfleik var 15-7. Aníta Eik Jónsdóttir var markahæst hjá HK með 5 mörk og Rut Bernódusdóttir skoraði 4 fyrir Gróttu.