Hamar og Selfoss mættust í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Hamarsmenn byrjuðu leikinn mun betur og slógu þar upp undirstöðum fyrir 97-89 sigur.
Hamar náði sautján stiga forskoti í upphafi leiks þar sem þeir hittu gríðarvel á meðan Selfyssinga virtist skorta sjálfstraustið. Staðan var orðin 24-7 eftir tæpar sex mínútur en þá hristu Selfyssingar úr sér hrollinn og náðu að minnka muninn í sex stig, 26-20. Staðan var 31-22 að loknum 1. leikhluta en Hamar var á góðri siglingu inn í 2. leikhlutann og heimamenn leiddu 56-37 í hálfleik.
Sveiflurnar í seinni hálfleiknum voru gríðarlegar. Selfyssingar áttu mjög góða kafla í 3. leikhluta og Hamarsmenn voru gjörsamlega kjaftstopp í upphafi 4. leikhluta eftir 17-2 áhlaup Selfoss sem skilaði gestunum sjö stiga forystu, 73-80.
Lokakaflinn var æsispennandi en Hamar náði að snúa leiknum sér í vil og Jose Aldana var öryggið uppmálað á vítalínunni þegar Hamarsmenn voru komnir í bónus. Hann setti niður sex vítaskot á lokakaflanum og Hamri tókst að halda aftur af nágrönnum sínum.
Sigurður Dagur Hjaltason var stigahæstur Hamarsmanna með 23 stig, Jose Aldana skoraði 22 stig og sendi 12 stoðsendingar og Ruud Lutterman skoraði 20 stig og tók 13 fráköst.
Í liði Selfoss var Kristijan Vladovic stigahæstur með 22 stig og 9 stoðsendingar, Kennedy Aigbogun skoraði 20 stig og tók 9 fráköst, Terrence Motley skoraði 17 stig og tók 10 fráköst og Sveinn Búi Birgisson skoraði 14 stig og tók 11 fráköst.
Deildarkeppninni er nú lokið og við tekur úrslitakeppni sem öll liðin í deildinni, fyrir utan deildarmeistara Breiðabliks, taka þátt í. Hamar mætir Hrunamönnum í átta liða úrslitum en Selfyssingar mæta Sindra.