Handknattleiksmaðurinn Janus Daði Smárason frá Selfossi hefur samið við ungverska stórliðið Pick Szeged og gengur til liðs við það næsta sumar.
Janus Daði hefur í vetur leikið með Evrópumeisturum Magdeburg í Þýskalandi eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá norska liðinu Kolstad í sumar.
„Pick Szeged er frábært félag með mikla hefð og sögu, frábæra stuðningsmenn er um leið annað af tveimur öflugustu liðum Ungverjalands. Helst hefur vantað upp á betri árangur í Meistaradeildinni á síðustu árum. Fyrst og fremst lít ég á þetta sem spennandi tækifæri sem mér bauðst,” sagði Janus Daði í samtali við handbolti.is.
Honum bauðst áframhaldandi samningur hjá Magdeburg en fannst Pick Szeged áhugaverðari kostur.
„Mér finnst margt spennandi við liðið. Það leikur í Meistaradeildinni sem styrkir vonandi stöðu mína gagnvart landsliðinu. Einnig er nýtt þjálfarateymi að koma til Szeged í sumar sem er áhugavert að vinna með,“ segir Janus Daði í viðtalinu við handbolti.is sem lesa má hér.