Íslenska unglingalandsliðið komst í úrslit á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Malmö í kvöld. Tvær stúlkur frá Selfossi eru í liði Íslands.
Íslenska landsliðið, með Selfyssingana Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur og Evu Grímsdóttur innanborðs, varð þriðja liðið inn í úrslit á eftir Svíum og Dönum. Íslenska liðið sýndi frábærar æfingar á trampólíni og gólfi en gerði stór mistök á dýnu. Það á því töluvert inni fyrir úrslitin á laugardag. Árangur kvöldsins telur ekki inn í úrslitin þar sem öll liðin byrja á núlli. Sigríður Ósk Harðardóttir, fimleikaþjálfari á Selfossi, segir liðið eiga mikla möguleika á að vinna til verðlauna á mótinu sem væri frábær árangur.
Lið Selfoss HM1 hefur keppni á morgun í undanúrslitum í fullorðinsflokki og segir Sigríður Ósk að liðið sé mjög spennt fyrir morgundeginum. „Það er mikil spenna í loftinu fyrir morgundeginum en við áttum mjög góða æfingu í höllinni í dag,“ segir Sigríður og bætir við að liðið fari snemma á fætur í fyrramálið.
„Við förum á fætur kl. 5:30 að íslenskum tíma (7:30 að staðartíma) til að gera okkur tilbúnar en förðun og greiðsla er stór þáttur í undibúningnum. Við byrjum upphitun í höllinni fimm tímum síðar en höllin er risastór og langt að fara milli upphitunar og keppnishallar.“