Golftímabilið á Íslandi byrjar venjulega ekki fyrr en í maí á hverju ári en það verður öðruvísi þetta árið þar sem fyrsta opna golfmótið verður á Svarfhólsvelli á Selfossi um helgina.
Ástand vallarins er einkar gott um þessar mundir eftir góða tíð undanfarnar vikur og því ákváðu forsvarsmenn Golfklúbbs Selfoss að halda Opna þorramótið á laugardaginn. Mótið var kynnt um miðjan dag á miðvikudag, og voru öll sæti upppöntuð á fimmtudagsmorgni.
„Það er greinilegt að golfarar eru orðnir spenntir að byrja þetta tímabil því mótið fylltist á tæpum sólarhring,” sagði Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Við höfum unnið mikið í undirstöðu vallarins undanfarin ár og það er að skila sér núna. Hann er í frábæru ástandi sem gerir okkur kleift að spila á sumarflötum og sumarteigum í febrúar, en auðvitað skiptir veðrið sem hefur verið undanfarna daga mestu máli,” bætir Hlynur við.
Á þessum tíma eru meðlimir GOS venjulega að nýta inniaðstöðu klúbbsins í Gagnheiðinni eða ekki búnir að taka kylfurnar úr geymslunni.
„Þeir hafa verið duglegir að nýta sér inniaðstöðuna og golfherminn að undanförnu þess vegna er frábært að þeir fái tækifæri til þess að fara út og spila 18 holur á þessum tíma. Svo fara þeir aftur inn ef og þegar veturinn kemur loksins,” segir Hlynur sem viðurkennir að vera ekki vanur að undirbúa golfmót á þessum tíma.
„Ég hef aðallega verið undirbúa árshátíð GOS sem er 17. mars og grunaði ekki að ég fengi þessa áhugaverðu truflun, ef svo má kalla. En árshátíðarundirbúningur hefst aftur á sunnudaginn,” segir Hlynur að lokum.