Hlynur Geir Hjartarson, GK, sigraði í dag á Canon mótinu í golfi, sem er þriðja mótið í sumar á Eimskipsmótaröðinni.
„Ég spilaði frábært golf alla helgina og hélt stöðugleikanum frá fyrsta degi þannig að ég er mjög ánægður með hvernig þetta spilaðist,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is.
Mótið fór fram við frábærar aðstæður á Urriðavelli í Garðabæ og lék Hlynur hringina þrjá á samtals 210 höggum. Í dag lék hann á 69 höggum og var kominn í yfirburðastöðu þegar hringur dagsins var hálfnaður. Hlynur lék fyrri níu holurnar á 31 höggi og var þá með sex högga forystu.
„Á þeim tímapunkti var ég fimm undir í heildina en það var smá spenna í manni í restina og ég gaf aðeins eftir undir lokin,“ segir Hlynur sem stefndi á það fyrir mót að sigra og leika á fimm undir pari. „Það tókst ekki alveg en ég er mjög ánægður með daginn. Ekki síst að Þjóðverjar sendu Englendinga heim af HM,“ segir Hlynur hlæjandi að lokum.
Næsta verkefni Hlyns er Evrópumót landsliða sem hefst í Svíþjóð 6. júlí.