Spilaði með tveimur sonum sínum

Hinn fertugi Jóhann Bjarnason lék í dag sinn 125. leik fyrir Knattspyrnufélag Árborgar og í fyrsta sinn lék hann með báðum sonum sínum, Herði og Einari Jakobi.

Jóhann lagði skóna að mestu leyti á hilluna í árslok 2008 eftir farsælan feril með Selfossi og Árborg. Hann lék þó einn leik með Árborg í fyrra og fékk heiðursleik í dag, gegn Stokkseyri. Hörður, 22 ára sonur Jóhanns, hefur verið fastamaður í vörn Árborgar í ár en bróðir hans, hinn 17 ára gamli Einar Jakob, spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í dag.

Þetta var því fyrsta sinn sem Jóhann spilaði meistaraflokksleik með báðum sonum sínum, en hann og Hörður höfðu áður spilað saman, fyrst haustið 2008 í fyrsta meistaraflokksleik Harðar.

Árborg sigraði 2-1 eftir hörkuleik. Hörður var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn, Jóhann kom inná á 84. mínútu og Einar Jakob á 86. mínútu. Faðirinn fór beint í fremstu víglínu og var hársbreidd frá því að skora rétt eftir að hann kom inná. Einar Jakob var hins vegar sá eini í fjölskyldunni sem komst á blað því hann fékk gult spjald fjórum mínútum eftir að hann kom inná og sýndi þar að hann er sonur föður síns.

Fyrri greinÞrjú mörk á fimm mínútum í Suðurlandsslag
Næsta greinÞjónusta lögreglunnar skerðist ekki