Birkir Fannar Bragason stóð í markinu hjá Selfoss í seinni hálfleik og átti nokkrar frábærar markvörslur í jafnteflinu gegn FH í kvöld.
„Þetta var alveg geðveikt, loksins spiluðum við góðan leik í 60 mínútur og uppskárum gott stig. Mér fannst bæði lið vera að spila vel og það er gaman þegar baráttan er svona mikil,” sagði Birkir sem leysti þjálfarann sinn af í markinu í hálfleik.
„Ég er mjög sáttur við minn leik. Það er fínt að koma inn í seinni hálfleik og vera hetjan,” sagði Birkir hlæjandi. „Ég hefði reyndar viljað taka tvo í viðbót og síðasta skotið átti ég að verja.”
Tvær umferðir eru eftir af deildinni og Selfoss á eftir að mæta Val og Aftureldingu á útivelli. Þetta eru þrjú neðstu liðin á stigatöflunni en Selfoss og Afturelding eru í fallhættu, bæði með 8 stig.
„Þetta verður bara spennandi. Ef við spilum svona þá tökum við þá báða leikina örugglega. Við spilum með myrkur í hjarta,” sagði Birkir léttur og vísar þar í ræðu Sebastians þjálfara í klefanum. „Þetta er eitthvað nýtt hjá honum. Hann er að taka okkur á sálfræðinni – en þetta virkar.”