Það var hart barist í nágrannaslag Árborgar og KFR í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin mættust á Selfossvelli og þar hafði Árborg sigur, 4-2.
Jou Calzada kom KFR yfir strax á 6. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Aron Freyr Margeirsson metin fyrir Árborg. Rangæingar voru baráttuglaðir og sprækir framan af og Ívan Breki Sigurðsson kom þeim yfir aftur með sannkölluðu glæsimarki, þegar hann hamraði boltann af löngu færi upp í samskeytin. Árborg sótti í sig veðrið eftir þetta og Magnús Ingi Einarsson jafnaði metin 2-2 með marki úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Það var ekkert gefið eftir í seinni hálfleik og skemmtileg einvígi háð út um allan völl en níu gul spjöld fóru á loft í leiknum. Árborgarar voru sterkari og á 64. mínútu skoraði Árni Páll Hafþórsson eftir hornspyrnu og kom Árborg í 3-2. Eitthvað fór mótlætið í skapið á Rangæingum og fjórum mínútum eftir markið fékk Jou Calzada að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir ljótt brot á Árna Páli.
Magnús Ingi gerði svo endanlega út um leikinn á 75. mínútu með öðru marki sínu og í stöðunni 4-2 má segja að leikurinn hafi fjarað út, þó að bæði lið hafi komist í ágætar stöður á lokakaflanum og Árborgarar fengið dauðafæri.
Með sigrinum fer Árborg aftur upp í 2. sæti A-riðils með 13 stig en KFR líklega missti í kvöld af sínum síðasta séns að komast inn í toppbaráttuna í riðlinum. Rangæingar hafa 6 stig í 7. sæti.
Gullfálkinn gafst upp
Hamar átti að mæta Gullfálkanum í kvöld í B-riðlinum en Gullfálkinn hefur dregið sig úr keppni í 4. deildinni eftir aðeins sex umferðir. Liðið gafst upp eftir 8-0 tap gegn Uppsveitum í síðustu umferð.