Hamar/Þór vann frábæran sigur á KR í toppbaráttu 1. deildar kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn að kvöldi sprengidags.
Liðin skiptust á að leiða í 1. leikhluta en KR var 13-17 yfir að honum loknum. Hamar/Þór komst aftur yfir um miðjan 2. leikhluta en á lokakafla fyrri hálfleiks var leikurinn stál í stál og KR leiddi 36-37 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var hnífjafn og allt fram í miðjan fjórða leikhluta var baráttan í algleymingi. Þær sunnlensku stigu hins vegar fastar til jarðar á lokamínútunum og kláruðu leikinn virkilega vel, ákveðnar í vörn og sókn og tryggðu sér að lokum 71-68 sigur.
Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 26 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 10 stig, Tijana Raca 9, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 8 stig og sendi 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 8 stig, Gígja Rut Gautadóttir skoraði 6 stig og tók 5 fráköst og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 4 stig og tók 7 fráköst.
KR og Hamar/Þór eru í 2.-3. sæti deildarinnar með 20 stig á eftir Aþenu sem er á toppnum með 22 stig en Aþena á leik til góða.