Knattspyrnudeild Umf. Selfoss og Íslandsbanki skrifuðu í dag undir samning en bankinn verður aðalstyrktaraðili deildarinnar næstu tvö árin.
Óskar Sigurðsson, formaður og Jón Rúnar Bjarnason, útibússtjóri, skrifuðu undir samninginn og segir Óskar að samningurinn sé mjög mikilvægur fyrir deildina enda taki hann til allra flokka bæði karla og kvenna.
„Þetta er einn stærsti styrktarsamningur sem deildin hefur gert en hann kallar á aukið framlag beggja aðila frá því sem verið hefur. Nýi samningurinn undirstrikar það góða samstarf sem við höfum átt við fyrirtækið og Jón og hans starfsfólk í útibúinu á Selfossi,“ sagði Óskar í samtali við sunnlenska.is.
Íslandsbanki hefur verið einn af aðal styrktaraðilum deildarinnar undanfarin 25 ár og segir Jón að það sé ánægjulegt að bankinn skuli geta lagt sín lóð á vogarskálar knattspyrnudeildarinnar.
„Samstarfið hefur gengið vel og ég á ekki von á öðru en að framhaldið verði á því. Það er kraftur í félaginu, öflugir yngri flokkar með mörgum iðkendum og báðir meistaraflokkar leika í efstu deild á næstu leiktíð sem er lyftistöng fyrir allt samfélagið. Þessu viljum við taka þátt í,“ sagði Jón í samtali við sunnlenska.is.