Selfoss situr í 6. sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu þegar mótið er hálfnað. Selfoss tók á móti Íslandsmeisturum Vals í kvöld og tapaði 0-1.
Þetta var hörkuleikur og stál í stál allan tímann. Upplegg Valskvenna heppnaðist þó betur, þær biðu þolinmóðar eftir réttu tækifærunum og sköpuðu sér mun betri færi. Eina mark leiksins kom á 20. mínútu þegar Anna Rakel Pétursdóttir lyfti boltanum glæsilega yfir Tiffany Sornpao í marki Selfoss.
Selfyssingar voru betri í seinni hálfleik en gekk illa að skapa sér færi. Á hinum enda vallarins var meiri hætta á ferðum en Tiffany Sornpao átti góðar vörslur í marki Selfoss, auk þess sem framherjum Vals voru mislagðir fætur í dauðafærum í vítateig Selfyssinga.
Seinni umferð Bestu deildarinnar hefst um næstu helgi en á sunnudag tekur Selfoss á móti botnliði Aftureldingar. Það er síðasti leikur liðsins fyrir EM-frí.