Selfoss tók á móti Herði frá Ísafirði í 1. deild karla í handbolta í dag. Eftir æsispennandi lokakafla sigraði Selfoss 25-24.
Selfyssingar voru sterkari á upphafsmínútunum og komust í 6-1. Harðverjar tóku þá við sér og náðu að minnka muninn í tvö mörk en staðan var 11-9 í hálfleik.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og náðu mest átta marka forskoti, 21-13. Þá fór allt í skrúfuna í sóknarleik Selfyssinga og Hörður jafnaði 24-24 þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Selfyssingar uppskáru vítakast í lokasókn leiksins og Tryggvi Sigurberg Traustason fór á vítalínuna þegar fjórar sekúndur voru eftir. Honum brást ekki bogalistin og Herði gafst ekki tími til að jafna metin.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Álvaro Mallols skoraði 4, Jónas Karl Gunnlaugsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Guðjón Baldur Ómarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Valdimar Örn Ingvarsson, Jason Dagur Þórisson og Hákon Garri Gestsson skoruðu allir 1 mark.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 10 skot í marki Selfoss.
Eftir tíu umferðir er Selfoss í 2. sæti deildarinnar með 16 stig en Hörður er í 5. sæti með 10 stig.