Standa fyrir skemmtimóti til styrktar Bergrós

Bergrós Björnsdóttir. Ljósmynd/Jens Andri

Æfingastöðin Box800 ætlar að standa fyrir skemmtiæfingu í Sunnulækjarskóla á Selfossi á morgun, miðvikudaginn 21. júní kl. 18:30 til 20:00. Æfingin er haldin til styrktar Bergrós Björnsdóttur, 16 ára Selfyssings, sem er að fara að keppa á heimsleikunum í Crossfit í ágúst næstkomandi.

„Það er mikill kostnaður sem fylgir þessu ferðalagi og okkur í Box800 langaði til þess að leggja okkar að mörkum til þess að styrkja þessa mögnuðu afreksíþróttastelpu,“ sagði Alda Kristinsdóttir, eigandi Box800 í samtali við sunnlenska.is, en hún rekur stöðina ásamt manni sínum Eyþóri Stefánssyni.

„Þetta verður skemmtileg æfing sem inniheldur allskonar þrautir inn á milli sem þarf að leysa. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert, til þess að koma saman og styðja við bakið á Bergrós og fjölskyldu,“ bætir Alda við.

Þátttakendur eru í tveggja til þriggja manna liðum og er aldurstakmarkið 16 ár. Þátttökugjald er 2.000 krónur á hvern þátttakanda og er hægt að skrá sig út daginn í dag með því að senda póst á info@box800.is eða senda skilaboð á samfélagsmiðla Box800. Allir eru svo velkomnir í Sunnulækjarskóla til þess að fylgjast með og hvetja þátttakendur áfram.

Einnig er tekið við frjálsum framlögum inn á reikning 0511-14-013564, kt. 060207-2160.

Alda Kristinsdóttir og Eyþór Stefánsson eru fólkið á bak við Box800. Ljósmynd/Jóhanna SH
Fyrri greinElvar íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra
Næsta greinFljúgandi villisvín í Skrúfunni