Stefán Magni Árnason var í síðustu viku ráðinn yngri flokka þjálfari hjá Körfuknattleiksfélagi FSu. Stefán mun taka við þjálfun stráka í 4.-6. bekk, en það er stærsti einstaki æfingahópurinn hjá félaginu.
Stefán Magni er menntaður íþróttafræðingur og sjúkraþjálfari og stundar iðn sína hjá Mætti – sjúkraþjálfun á Selfossi en starfaði áður sem íþróttakennari við grunnskólana í bænum. Hann ólst upp á Skeiðunum og sótti sinn skóla og körfubolta á Flúðir en flutti á unglingsaldri á Selfoss og æfði þar í nokkur ár.
Með ráðningu Stefáns Magna og Hörpu Reynisdóttur er þjálfarateymi yngri flokkanna orðið þéttskipað vel menntuðu og hæfu fólki, eins og gera á kröfur um. Karl Ágúst Hannibalsson, sem á myndinni handsalar ráðningu Stefáns Magna fyrir hönd félagsins, er íþróttafræðingur og íþróttakennari en er á leið í meistarnám í þjálfunarfræðum og minnkar fyrir vikið aðeins við sig. Hann mun þjálfa allra yngstu hópana meðfram námi.