Skjálfti, stuðningsmannasveit Selfoss, var valinn besti stuðningsmannahópurinn í 1.-8. umferð Pepsi deildar karla.
Skjálftamenn fengu viðurkenninguna afhenta fyrir leikinn gegn ÍBV á Hásteinsvelli á föstudaginn.
Ragnar Skjálfti Traustason, forsprakki hópsins, segir að þar á bæ séu menn gríðarlega ánægðir með þessa viðurkenningu.
„Jú, þetta er frábært en þetta kom okkur svosem ekkert á óvart. Við erum búnir að mæta öllum liðunum í deildinni nema Blikum og Grindavík og höfum alltaf haft undirtökin á pöllunum. Okkur hefði fundist það mjög súrt ef einhverjir aðrir hefðu verið teknir framyfir okkur í þessu vali,“ segir Ragnar.
Skjálftamenn hafa kaffært þekktustu stuðningsmannasveitir landsins, Mafíuna í Hafnarfirði, Miðjuna í Vesturbænum og Puma-sveitina í Keflavík. Skjálftamenn eru „nýliðar“ í deildinni og Ragnar segir það gefa mönnum ákveðinn kraft. „Menn vilja stimpla sig inn í deildina í stúkunni líka og kraftmesta sveitin sem við höfum mætt voru Haukarnir, enda eru þeir í sama ævintýri og við. Það er mikill áhugi innan hópsins og þó að það sé kannski erfitt að smala í hóp á sunnudegi og mánudegi þá er þetta skemmtilegra núna og menn þurfa að gíra sig upp fyrir hvern leik af því að það er samkeppni í stúkunni.“
Ragnar segir flest lögin verða til á vellinum en líklega er óhætt að segja að Kalli í Holti sé aðal lagasmiður hópsins. „Honum leiðist ekki að semja lögin. Síðan eru Mummi og Maggi seigir í þessu líka. Þeir vakna alltaf klukkan fimm á nóttunni til að tína tómata og í svefngalsanum semja þeir texta um leið.“
Þrátt fyrir að vera komnir með verðlaun fyrir góðan stuðning í upphafi móts segir Ragnar að Skjálftamenn slái ekki slöku við í framhaldinu. „Þetta eru verðlaun fyrir einn þriðja af mótinu og það eru tvær aðrar viðurkenningar eftir. Við stefnum auðvitað á að fara í gegnum tímabilið með fullt hús stiga í þessu. Það þarf meira til svo að við eigum möguleika á að vinna þetta aftur þannig að við gefum bara í. Liðið er í fallbaráttu og þarf á góðum stuðningi að halda og það hvetur okkur enn frekar,“ sagði Ragnar að lokum.